Brauð með sólþurrkuðum tómötum og hvítlauk

Það er skemmtileg tilbreyting að bæta ýmiskonar auka hráefnum í brauð. Þetta brauð með sólþurrkuðum tómötum og hvítlauk skapar suðræna stemmingu, en það mætti í staðinn (eða einnig!) bæta við ólífum eða kryddjurtum til að ná fram sömu stemmingu. Möguleikarnir eru óþrjótandi!

Brauð með sólþurrkuðum tómötum og hvítlauk

sdtbraed

Hráefni:

  • 900 g. brauðhveiti (6 bollar)
  • 2 tsk. salt
  • 2 msk. sykur (valkvæmt)
  • 12 g. þurrger (1 pakki)
  • 500 g. mjólk (2 bollar)
  • 2 msk. tómatþykkni eða tómatpesto
  • 4 msk. olía af sólþurrkuðu tómötunum
  • 4 msk. ólífuolía
  • ¾-1 bolli sólþurrkaðir tómatar (í olíu)
  • 6-8 hvítlauksrif (eða eftir smekk)

Aðferð:

Blandið hveitinu, saltinu, sykrinum og gerinu saman í skál. Velgið mjólkina og hrærið tómatþykkninu (eða tómatpestóinu) saman við.  Hellið vökvanum og olíunum saman við þurrefnin og blandið vel.  Hnoðið (í höndunum eða vél) þangað til deigið er slétt og samfellt. Setjið í skál, breiðið yfir, og látið lyfta sér á hlýjum stað þangað til deigið hefur tvöfaldast í stærð (u.þ.b. 1-2 klst).

Þerrið sólþurrkuðu tómatana lauslega á eldhúsrúllu og skerið (eða klippið) í smá bita. Saxið hvítlaukinn smátt eða skerið í þunnar sneiðar.

Setjið deigið á hveitaðan borðflöt þegar það er búið að lyfta sér og hnoðið sólþurrkuðu tómötunum og lauknum saman við.  Skiptið deiginu í 2-3 hluta og formið kúlu úr hverjum fyrir sig og setjið á bökunarpappír. Breiðið viskastykki yfir og látið lyfta sér í a.m.k. 1 klst. á hlýjum stað.  Hitið bökunarofninn á meðan í 180C.

Bakið brauðið í u.þ.b. 35-45 mínútur.

Látið brauðið kólna á grind í smá stund áður en það er skorið.

Ábendingar:

Það er valkvæmt að bæta sykri í deigið og í raun ekki nauðsynlegt. Það hjálpar hins vegar svolítið í þessari uppskrift við að mynda fallega brúna og „rustic“ brauðskorpu.

Ef nægur tími er til stefnu þá er ákjósanlegra að deigið fái að lyfta sér í ísskáp yfir nótt eða jafnvel heilan dag, sér í lagi við seinni lyftingu (loftið fer töluvert úr deiginu þegar tómötunum og hvítlauknum er hnoðað saman við).  Látið deigið þá lyfta sér í ísskáp í 12-24 klst, en munið að taka það úr ísskápnum u.þ.b. 2 klst. áður en það á að fara í ofninn. Því lengur sem deigið fær að lyfta sér því minna ger þurfið þið í uppskriftina, og væri t.d. nægjanlegt að nota helmingi minna þurrger en gefið er upp í uppskriftinni af ofan.

Það er erfitt að gefa upp nákvæman bökunartíma því að hitastig ofna er ekki það nákvæmt og getur munað töluverðu á milli tveggja ofna.  Prófið ykkur áfram með það.  Ein leið til að segja til um hvort brauðið sé bakað er að taka það úr ofninum og banka með fingrunum í botn þess, og ef það heyrist tómahljóð þá það tilbúið!

Ég nota núorðið oftast bökunarstál við brauðbakstur þegar ég vill fá stökka og fallega skorpu. Til að fá jafnbakaða skorpu þá hefur reynst mér best að setja brauðið í miðjan ofninn þegar ég nota stálið, en án þess neðarlega í ofninn.

Færðu inn athugasemd

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com.

Upp ↑