Flýtileiðir

Brúará 1. júní 2020

Eins og maður hafi ekki fengið nóg af köldu vatni á sunnudaginn, þá var stefnan tekin á eitt slíkt sem rennur á mánudaginn, Brúará í Biskupstungum. Það eru nokkur ár síðan jómfrúarferðin var í Brúará og sú ferð var farin án þess að þekkja haus né sporð á þessari margrómuðu á. Uppskeran þá var lítil í fiskum talið, en reynslan kenndi manni að þarna þyrfti maður annað viðhorf og þekkingu heldur en í vatnaveiði.

Dagurinn var tekinn snemma á okkar mælikvarða og við vorum mætt í land Spóastaða rétt um kl.9 í alveg ágætis veðri. Við fyrstu sýn þótti mér nokkur litur á ánni og eitthvað var vatnsborðið hærra heldur en oft áður, þetta yrði krefjandi fyrir ókunnuga að eiga við. Til allrar lukku bar fljótlega að garði tvo nestisferðalanga í síðbúnum sunnudagsbíltúr rétt í þann mund sem við vorum að græja okkur. Annar þessara félaga okkar hafði töluverða reynslu af ánni og við gerðum okkar besta til að draga upp úr honum tips and tricks um það hvernig við ættum að bera okkur að, hvaða veiðistaðir væru álitlegir o.s.frv. Þegar maður lendir í svona flóði upplýsinga og ráðlegginga frá manni sem þekkir til og hefur gert góða veiði þarna, þá skilur á milli kjaftasagna og raunveruleika. Taumasverleiki, lengd og flugnaval dagsins var að mestu skv. ráðum þessa ágæta drengs og þá er aðeins við vanþekkingu mína að sakast þegar kemur að aflatölum. Vinsamlegast athugið að ef ég nefni ekki nart, tökur eða fisk á þeim veiðistöðum sem ég nefni hér á eftir, þá er það vísbending um að ekkert af framangreindu bar við á þeim slóðum.

Það er ekki ósnorturt útsýnið við Brúará

Við hófum leika rétt fyrir neðan Dynjanda undir efsta hluta Hrafnakletta. Skyggni í vatninu var heldur lítið þannig að hér var ekki um að ræða að kasta á bleikjuna þar sem hún sást, en ég þóttist sjá þarna nokkra álitlega staði og við létum slag standa. Eftir heldur rólega stund, fyrir utan örfáar flugubjörgunarferðir upp í klettana fyrir aftan okkur, færðum við okkur skv. leiðbeiningum niður fyrir Hrafnakletta og veiddum eins og fyrir okkur var lagt undir grasbökkunum, vel út í, að og meðfram bakkanum.

Efsti hluti Hrafnakletta

Þegar við vorum u.þ.b. hálfnuð niður að Kerlingarvík, snéri ég við og færði bílinn niður að téðri vík og veiddi mig upp eftir ánni til móts við veiðifélaga minn. Á leið minni voru nokkrir skemmtilegir staðir sem ég reyndi við, en þar sem við mættumst gerðum við hlé á veiðinni, fengum okkur kaffisopa og spáðum í spilin áður en við veiddum okkur í sameiningu niður fyrir Kerlingarvík. Fyrir áhugasama þá er alveg ágætis grasflöt við víkina þar sem ágætt er að teygja úr sér, taka góða nestispásu og virða fyrir sér óðinshana pikka upp æti á ánni.

Óðinshani – Uppáhalds fuglinn minn

Þegar hérna var komið sögu grunaði okkur að morgunvaktin á Breiðabakka hefði lokið sér af og því tókum við okkur upp og færðum okkur þangað. Breiðabakki ber nafn með rentu, breiður árfarvegurinn umlukinn grónum grasbökkum þar sem ekkert flækist fyrir í bakkastinu. Skömmu eftir að fyrstu flugurnar höfðu verið baðaðar bar að garði veiðimann sem hafði verið niðri við brú um morguninn og ekkert orðið var við fisk þar. Ekki þótti mér þetta lofa góðu fyrir það sem eftir lifði dags hjá mér, byrjandanum sem átti eiginlega engin trix eftir uppi í erminni. Það var því næstum jafn mikill fögnuður hjá mér og þessum ágæta veiðimanni, þegar hann setti í og landaði þessari líka flottu bleikju á nánast sömu uppsetningu og ég var með fyrir BAB (Kibba). Enn væri von.

Breiðabakki – Smellið fyrir stærri mynd

Vonin tók nú eitthvað að dvína eftir því sem leið á og að lokum færðum við okkur aftur upp að veiðikofa, fengum okkur hressingu og hugðumst veiða frá Klöpp og út að Ferjunefni þar til mál væri komið að tygja sig til heimferðar. Ég verð að viðurkenna að það örlaði á einhverri óeirð í mér þegar hingað var komið, þannig að ég staldraði stutt við á hverjum stað og fór frekar hratt yfir. Lengst staldraði ég við ákveðið grenitré sem hafði fangað flugu veiðifélaga míns, efst uppi í toppi.

En svo kom að því, fiskur hreyfði sig eftir flugu. Ekki hjá mér, heldur veiðifélaga mínum sem var rétt ofan við Klöppina. Ég settist niður og naut þess að horfa á atrennur fisksins við flugu og tökuvara félaga míns. Það var ekki fyrr en konan tók tökuvaran og kúlupúpuna af og setti smágerðan Langskegg undir að bleikjan tók af alvöru eftir að veiðifélaginn leyfið strauminum að færa fluguna fyrir bleikjuna. Hörku flott taka og á endanum lá þessi líka flotta 45 cm bleikja í netinu.

Eftir nokkrar tilraunir í viðbót við Klöppina, ef ské kynni að fleiri bleikjur væru þar á ferðinni, létum við gott heita, kvöddum Brúará og þökkuðum fyrir þennan prýðilega dag í Tungunum. Brúará heldur áfram að vera óunninn veiðistaður hjá mér, hvað sem síðar verður.

Fisklaus veiðimaður í lok dags
Bleikjur í ferð
1 / 0
Bleikjur alls
3 / 3
Urriðar í ferð
0 / 0
Urriðar alls
2 / 3
Veiðiferðir
8 / 9

Senda ábendingu

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com