Finnst skrýtið að fá ekki lengur í skóinn

Berglind Pétursdóttir ætlar að vera með happdrætti í Rammagerðinni.
Berglind Pétursdóttir ætlar að vera með happdrætti í Rammagerðinni.

Sjónvarpskonan og textasmiðurinn Berg­lind Pét­urs­dótt­ir, bet­ur þekkt und­ir nafn­inu Berg­lind Festi­val, er mikill fagurkeri og heldur mikið upp á íslenska hönnun inni á heimilið. Hún er komin í mikið jólaskap og ætlar að vera happdrættisstýra í Rammagerðinni á laugardaginn. Hægt verður að vinna stórglæsilega hönnunarvinninga. Berglind vill alls ekki neitt nytsamlegt í jólapakkann - heldur eitthvað fyndið, sætt og skemmtilegt. 

Hvað er það fyrsta sem kemur þér í jólaskap í byrjun desember? 

„Þegar starfsmenn borgarinnar hengja upp jólaskrautið kemst ég rakleiðis í jólaskap þar sem ég bý á Hverfisgötunni og það er einn ljósastaurakrans beint fyrir utan svefnherbergisgluggann minn. Maður getur varla sofið fyrir jólaljósi og stemningu!“

Hvaða þrír hlutir eru efstir á jólapakka óskalistanum þínum? 

„Mig langar í loðinn koll og loðinn púða. Eða þrjár bækur. Og frið á jörð.“

Hvað langar þig alls ekki í í jólagjöf? 

„Ekkert nytsamlegt takk, bara eitthvað fyndið og sætt og skemmtilegt.“

Áttu uppáhaldsjólalag og  hvaða jólalag þolir þú ekki? 

„Þú komst með jólin til mín er uppáhalds jólalagið mitt, sérstaklega þegar ég er búin með tvo til þrjá jólabjóra! Ég hef mjög litla þolinmæði fyrir Rúdolfi með rauða trýnið. Finnst hann alveg ferlegur.“

Hvað langar þig mest inn á heimilið fyrir jólin eða í jólagjöf? 

„Ég er mjög hrifin af öllu frá Stúdíó Fléttu, kertastjakinn minn frá þeim finnst mér algjört æði. Ég ætla svo að kaupa mér jólakertið frá Fischer sem er einhver besta jólalykt sem er til! Mig er lengi búið að langa í Fuzzy koll og aldrei að vita nema ég gefi mér svoleiðis krútt í jólagjöf. Á laugardaginn þann 2. desember er ég að stýra hönnunarhappdrætti í versluninni Rammagerðinni í Hörpu kl. 16.30 þar sem verður hægt að vinna fullt af æðislegri íslenskri hönnun, hvet alla til að mæta þangað!“

Hvað er í matinn á aðfangadagskvöld hjá þér? 

„Það er engin föst hefð með matinn í minni fjölskyldu á aðfangadag, börnin (sem eru reyndar orðin unglingar) hafa fengið að stýra þessu svolítið síðustu ár og þeir hafa verið svolítið í humri og nautasteikum sem hefur verið mjög vel lukkað. Á jóladag borðum við hinsvegar alltaf hangikjöt með kartöflumús, rauðkáli og ORA grænum. Engin jól án ORA.“

Berglind elskar Ora grænar baunir.
Berglind elskar Ora grænar baunir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ertu búin að fjárfesta í partýkjólum fyrir desember?

„Ég keypti mér æðislegan jólakjól frá Henrik Vibskov sem ég ætla að vera í öll jólin. Hann er rúmgóður og hægt að borða allt hangikjöt sem manni sýnist í honum.“

Hvað finnst þér það skrýtnasta eða óþægilegasta við jólin? 

„Mér finnst skrítið að ég fái ekki í skóinn lengur. Það mætti gjarnan breyta því.“

Hefurðu einhverntímann varið jólunum í útlöndum? 

„Bróðir minn og fjölskyldan hans búa í Brighton svo við erum mjög oft þar um jólin og það er alveg frábært. Brighton er algjört jólaland, held það sé ekki hægt að finna jólalegri stað á þessari jörð. Og Bretinn er auðvitað mjög duglegur að fá sér í glas á jólunum sem mér finnst algjör draumur.“

Hver væru draumajólin þín? 

„Við megum ekki gera of miklar kröfur á jólin, þau eru alltaf fullkomin eins og þau eru.“

Hver værir þú af jólasveinunum íslensku og af hverju? 

„Ég er Kertasníkir. Er að fara í gegnum svona 1000 kerti í það minnsta í desember.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál