c

Pistlar:

4. nóvember 2023 kl. 16:25

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Slokknar á ljósum Suður-Afríku

Suður-Afríka er syðsta land Afríku og er um það bil 12 sinnum stærra en Ísland að flatarmáli. Íbúar landsins eru um 60 milljónir talsins og landið því fjölmennasta land Afríku sunnan miðbaugs. Landið er gjöfult frá náttúrunnar hendi en var lengst af þekkt fyrir aðskilnaðarstefnu sína þar sem hvítur minnihluti drottnaði yfir svörtum meirihluta. Það breyttist 1994 og völdin færðust til svartra sem hafa að mestu ríkt í gegnum Afríska þjóðarráðið, ANC.safrik2

Það voru miklar áskoranir því samfara að ráðast í þessar nauðsynlegu samfélagsbreytingar. Gæfa Suður-Afríkumanna var að fá Nelson Mandela (1918-2013) sem leiðtoga. Eftir að hafa mátt dúsa í fangelsi í 27 ár kom hann út sem sigurvegari. Madela taldi samt að það væri lykilhlutverk sitt að fá hvíta minnihlutann til að treysta sér. Á sama tíma var sterkur vilji meðal félaga hans í ANC að efna til uppgjörs við þá. Á sínum tíma las pistlaskrifari bók eftir helsta ævisöguritara Mandela, Richard Stengel, sem varði þremur árum í að skrifa ævisöguna A Long Walk to Freedom og varð persónulegur vinur Mandela fyrir vikið. Mandela lagði höfuðáherslu að sameina þjóðina og forðast blóðugt uppgjör eins og sumir vinstri sinnaðir félagar hans innan ANC vildu.

Fyrirhyggjuleysi í orkumálum

En stjórn mála í Suður-Afríku dagsins í dag er ekki góð og nú er svo komið að ljósin í landinu er að slokkna í orðsins fylgstu merkingu. Fyrirhyggjuleysi stjórnvalda í orkumálum hefur verið mikið og undanfarin ár hefur ástandið verið stöðugt að versna. Ekki hefur verið gætt að uppbyggingu orkumannvirkja, eldri orkuver gengið úr sér og á það sérstaklega við um kolaorkuverin sem eru fjölmörg í landinu enda miklar kolanámur þar. Þá hefur mikil spilling aukið á vandann en stórar fjárhæðir hverfa árlega úr sjóðum hins opinbera orkufyrirtækis.Skjámynd 2023-11-04 162055

Staðan versnar ár frá ári og nú er svo komið að stundum er rafmagnslaust í 10 tíma á dag. Skorturinn er afleiðing tíðra bilana í öldruðum kolaorkuverum, sem anna um 74% af framleiðslugetu landsins. Áætlanir benda til þess að Suður-Afríka þurfi um 6.000 MW af aukagetu til að vinna bug á núverandi skorti. Sérfræðingar segja að það geti tekið allt að fimm ár að uppræta þennan skort miðað við að ráðist verði í umfangsmiklar úrbætur strax. Ómögulegt er að segja hvort af því verður en kosningar eru í landinu á næsta ári. Í Suður-Afríku eru mótmæli vegna skorts á orkuverum ekki til að mótmæla byggingu nýrra eins og hér á landi. ANC flokkurinn hefur eins og áður sagði haldið um valdataumanna og stýrt þessu ferli og hefur verið þokkalega tryggur í sessi hvað sem verður en afleiðingar orkuskortsins síast um allt þjóðfélagið.

Enn er verið að skoða að byggja ný kola-, kjarnorku- eða gasver til að bæta raforkuframboð í framtíðinni, en slík ver þurfa langan byggingartíma eða allt upp á 10 ár. Kjarnorkuverin enn lengri tíma. Þessi nýju ver myndu því ekki breyta myndinni næsta áratuginn, ef sátt næðist á annað borð um byggingu þeirra.safrika

Endalaus orkustopp

Nú er svo komið að það þarf að skammta rafmagn um nánast allt land og oft hverfur rafmagnið fyrirvaralaust. Þetta hefur eðlilega gríðarleg áhrif á atvinnulíf og mannlíf. Fyrirtæki geta skyndilega lent í stoppi og vörur skemmast sem þurfa að treysta á kælingu. Þannig ónýtist gríðarlegt magn matvæla og heilbrigðisyfirvöld eru í miklum vandamálum með lyf sem þurfa á kældri geymslu að halda. Að ekki sé talað um vandamál sem því fylgja fyrir heilbrigðisstofnanir að þurfa að búa við rafmagnsleysi, stundum fer það við verstu aðstæður, svo sem í miðjum uppskurði eða þegar fólk þarf á öndunarvélum að halda.

Rafmagnsleysið hefur mikil áhrif á líf venjulegra borgara, myrkvunin er viðvarandi ástand í borgum sem hefur aukið glæpatíðni sem var gríðarleg fyrir. Jaðrar nú við óöld í sumum borgum sem minnir helst á hryllingssenur dystópískra kvikmynda. Um leið hafa þjóðartekjur á mann verið að dragast saman, neysla minnkar vegna minni kaupmáttar og atvinnuleysi er upp úr öllu valdi. Þeir ríku reyna að bjargast við þessar aðstæður og hafa ríkari hverfin reynt að koma upp eigin vararafstöðvum og öryggisgæslu og það dregur ekki úr hinu dystópíska ástandi.

Sögulega séð hefur Suður-Afríka verið nettóútflytjandi orku og því eru nágranalöndin sum hver í svipuðum vanda þar sem þau treystu á orku frá Suður-Afríku. Í eina tíð gat landið státað af háþróaðri tækni- og innviðagetu en skortur á fjárfestingu hefur keyrt landið aftur á bak. Suður-Afríka er ríkt af náttúruauðlindum, þar á meðal eru miklir möguleika á sólarorku en vanhæfni stjórnenda hefur rýrt þá möguleika verulega.