Páfagaukur heimsækir Hamar

Ýmsum sem leið áttu í Hamar, félagsheimili Þórsara á Akureyri, um tvöleytið í dag, þótti sérkennilegt að sjá Sigfús Helgason framkvæmdastjóra félagsins hendast um bílaplanið á fjórum fótum. Skýringin kom þó fljótt í ljós þegar Sigfúsi tókst að handsama lítinn páfagauk sem hoppaði og hljóp um en virtist ekki geta flogið. Sigfús hafði verið að elta fuglinn.  Var páfagaukurinn greinilega villtur og hræddur en þó ekki sjáanlega meiddur. Sigfús og aðrir Þórsarar tóku fuglinn inn og hlúðu að honum og höfðu á orði að hann væri ansi snotur, þrátt fyrir litina. Hann er að mestu blár og gulur.  "Ég tel líklegt að það einhvers staðar séu  sorgmæddir ungir páfagaukseigendur sem óttast um fuglinn sinn  og því er brýnt að benda á að það fer vel um hann hér og eigandinn getur vitjað hans hjá okkur," sagði Sigfús við Vikudag fyrir stundu. Hægt er að ná sambandi við Sigfús í síma 860-2622.


Athugasemdir

Nýjast